Heilbrigðiseftirlitið hlýtur styrk til grunnrannsókna á lífríki Selvatns, Silungatjarnar og Krókatjarnar
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur úthlutað Heilbrigðiseftirliti Kjósarsvæðis styrk til grunnrannsóknar á vistfræði Selvatns, Silungatjarnar og Krókatjarnar í Mosfellsbæ að upphæð 1 milljón króna.
Unnið er að rannsókninni af Náttúrufræðistofu Kópavogs sem áður hefur rannsakað Hafravatn og Meðalfellsvatn fyrir heilbrigðiseftirlitið. Verkefnið fellur m.a. undir reglugerð um varnir gegn mengun vatns og felst í að kanna grunnástand lífríkis í þessum vötnum sem er mikilvægt til að geta brugðist við ef ástandi hrakar síðar. Styrkurinn kemur sér ákaflega vel og gerir heilbrigðiseftirlitinu kleyft að fjármagna úrvinnslu sýna sem tekin hafa verið úr vötnunum.
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið veitir árlega styrki til verkefna á vegum félaga, samtaka og einstaklinga. Í verkefnaúthlutun ráðuneytisins í ár voru 34,2 milljónir króna til ráðstöfunar. Heildarupphæð umsókna um verkefnastyrki nam rúmlega 150,5 milljónum króna.